Öruggur sigur á Hvít-Rússum
A landslið kvenna vann í dag öruggan 3-0 sigur á liði Hvít-Rússa í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM 2007. Nokkur góð færi fóru forgörðum hjá íslenska liðinu og hefði sigurinn getað verið mun stærri.
Íslenska liðið réði gangi leiksins allan tímann og hefði, eins og fyrr segir, átt að vinna stærri sigur. Gestirnir áttu þó fyrsta umtalsverða marktækifærið í leiknum þegar langskot hafnaði í þverslá íslenska marksins og í kjölfarið bjargaði Erla Hendriksdóttir á marklínu.
Dóra María Lárusdóttir náði forystunni fyrir Ísland eftir um hálftíma leik og reyndist það vera eina mark fyrri hálfleiks. í síðari hálfleik var lengst af einstefna að marki Hvít-Rússa og bætti íslenska liðið við tveimur mörkum með stuttu millibili um miðbik hálfleiksins, fyrst skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir og síðan bætti Dóra María við öðru marki sínu.
Sigurinn gefur íslenska liðinu byr undir báða vængi fyrir næsta leik, sem er á útivelli gegn Svíum sunnudaginn 28. ágúst næstkomandi.