• mið. 17. ágú. 2005
  • Landslið

Suður-Afríkumenn lagðir í Laugardalnum

Eiður Smári lék vel gegn Suður-Afríku
Picture_176

Íslenska landsliðið vann í kvöld glæsilegan sigur á Suður-Afríkumönnum í vináttulandsleik á Laugardalsvelli. Fjögur glæsileg mörk frá íslenska liðinu og frábær frammistaða gegn einni af sterkustu knattspyrnuþjóðum Afríku.

Grétar Rafn Steinsson kom íslenska liðinu á bragðið með góðu skallamarki eftir fyrirgjöf frá Indriða Sigurðssyni um miðjan fyrri hálfleik, en Delron Buckley jafnaði metin fyrir gestina nokkrum mínútum síðar. Markið fékk að standa þó Buckley hafi greinilega verið rangstæður.

Arnar Þór Viðarsson kom Íslandi aftur yfir skömmu fyrir hlé með fyrsta landsliðsmarki sínu, gott skot frá vítateig eftir sendingu frá Eiði Smára Guðjohnsen.

Þriðja markið skoraði Heiðar Helguson um miðjan síðari hálfleik með þrumuskalla eftir hornspyrnu og átti Hans Vonk markvörður Suður-afríska liðsins ekki möguleika, svo fastur var skallinn.

Síðasta markið, og það glæsilegasta í leiknum, skoraði Veigar Páll Gunnarsson með þrumufleyg sem hafnaði efst í stönginni fjær og fór þaðan í netið.

Íslenska liðið hafði yfirhöndina nánast allan leikinn og var hrein unun að horfa á liðið á löngum köflum. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri, enda fóru nokkur góð færi forgörðum. Gestirnir náðu ekki að ógna íslenska markinu að ráði en áttu nokkur langskot sem rötuðu þó ekki á markið.