• fim. 11. ágú. 2005
  • Fræðsla
  • Landslið

Þjálfaði félagslið í Noregi, Portúgal, Svíþjóð og Japan

Stuart Baxter
stuart_baxter

Englendingurinn Stuart Baxter, landsliðsþjálfari Suður-Afríku, hefur komið víða við á þjálfaraferli sínum. Hann hefur þjálfað félagslið í Noregi, Portúgal, Svíþjóð og Japan, auk þess að starfa sem þjálfari hjá enska knattspyrnusambandinu um skeið.

Baxter tók við landsliði Suður-Afríku í júní 2004, hefur stjórnað liðinu í 17 leikjum, unnið 10 gert 3 jafntefli og tapað 4. Markatalan er 25-17.

Hann hefur unnið 6 titla með þeim félagsliðum sem hann hefur þjálfað, auk þess að ná góðum árangri með U19 landslið Englands.

Á meðal þeirra félagsliða sem Baxter hefur þjálfað eru Lyn í Noregi og AIK í Svíþjóð auk Sanfrecce Hiroshima og Vissel Kobe í Japan, en með öllum þessum liðum hefur hann unnið til verðlauna.

Baxter, sem m.a. var kjörinn þjálfari ársins í Japan á sínum tíma, hefur lokið UEFA-Pro þjálfaragráðunni, sem er hæsta gráða fyrir knattspyrnuþjálfara samkvæmt UEFA-sáttmálanum um þjálfaramenntun.

Sem leikmaður var hann á mála hjá liðum á Bretlandseyjum - Preston, Stockport og Dundee - áður en hann hélt til Skandinavíu þar sem hann lék við góðan orðstír, m.a. með Halmstad og AIK í Svíþjóð, en þjálfaraferilinn hóf hann í neðri deildunum í Noregi.

Baxter er þekktur fyrir að leggja mikið á sig við að læra siði og tungumál í hverju því landi sem hann þjálfar og hefur hann nú, auk móðurmálsins, gott vald á japönsku, norsku, portúgölsku og sænsku, en þess má geta að hann er giftur sænskri konu og á heimili hans er oftast töluð sænska, enda börnin fædd í Svíþjóð og þar bjuggu þau fyrstu árin.