Flautað til leiks með þýskubílnum
331 degi áður en Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hefst í Þýskalandi var áhugavert verkefni sett af stað - Flautað til leiks með þýskubílnum. Vigdís Finnbogadóttir setti verkefnið af stað með því að keyra þýskubílinn, sem er af gerðinni Porsche Cayenne, fyrsta spölinn.
Þýskubíllinn er samstarfsverkefni þýska sendiráðsins á Íslandi, Félags Þýskukennara, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskóla Íslands.
Þýskubíllinn mun aka um Ísland næsta árið og kynna HM 2006 í Þýskalandi, um leið og þýskuþjálfarinn kennir krökkum hjá knattspyrnufélögum og í knattspyrnuskólum þýsk fótboltaorð.
Verkefnið var formlega sett af stað á blaðamannafundi sem haldinn var á Laugardalsvelli og meðal viðstaddra voru Vigdís Finnbogadóttir og Johann Wenzl sendiherra Þýskalands, auk íslenskra fyrrverandi leikmanna í þýsku Bundesligunni.
Starfsmaður verkefnisins, þýskuþjálfarinn Kristian Wiegand, er kostaður af Robert Bosch-stofnuninni og Würth-stofnuninni, sem báðar eru í sambandsríkinu Baden-Württemberg.