• mán. 04. júl. 2005
  • Landslið

Danska liðið einfaldlega of sterkt

Knattspyrnusamband Íslands
ksi_merki

U17 landslið kvenna beið í dag lægri hlut gegn liði Dana í fyrsta leik liðsins á Opna Norðurlandamótinu, sem fram fer í Þrándheimi í Noregi.  Danska liðið var einfaldlega mun sterkara en það íslenska og var þriggja marka sigur þeirra dönsku nokkuð öruggur.

Danska liðið hafði yfirburði í fyrri hálfleik en uppskar aðeins eitt mark, strax í upphafi leiks.  Í byrjun síðari hálfleiks sóttu Danir stíft og bættu við tveimur mörkum, það fyrra kom eftir um 5 mínútna leik og þriðja markið kom þegar um klukkutími var liðinn af leiknum.  Eftir þetta jafnaðist leikurinn og íslenska liðinu óx ásmegin, en tókst þó ekki að skora.

Næsti leikur Íslands er gegn Noregi á þriðjudag og hefst hann kl. 16:00 að íslenskum tíma.

Leikjaniðurröðun og stöðutöflur mótsins er að finna í flettistikunni hér til hægri - MÓT LANDSLIÐA.