• mið. 08. jún. 2005
  • Landslið

Frábær 4-1 sigur gegn Möltu

Eiður Smári Guðjohnsen
eidur_smari_skot

Ísland lagði Möltu með fjórum mörkum gegn einu í undankeppni HM 2006 á Laugardalsvelli á miðvikudagskvöld og innbyrti þar með fyrsta sigur sinn í keppninni.  Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í leiknum og var sigurinn fyllilega verðskuldaður.

Gunnar Heiðar náði forystunni fyrir Ísland á 29. mínútu eftir glæsilega fyrirgjöf frá Tryggva Guðmundssyni af vinstri kanti.  Frábær samvinna hjá Eyjamönnunum í liðinu og fyrsta landsliðmark Gunnars Heiðars staðreynd.

Fyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen jók forystuna í tvö mörk sex mínutum síðar með glæsilegu skoti úr vítateignum, 15. mark Eiðs Smára fyrir landsliðið, og vantar hann nú aðeins tvö mörk til að jafna markamet Ríkharðs Jónssonar. 

Brian Said náði að minnka muninn fyrir Möltu á 59. mínútu, þegar hann skoraði af stuttu færi eftir að Árni Gautur Arason hafði varið langskot.

Tryggvi Guðmundsson náði aftur tveggja marka forystu fyrir íslenska liðið þegar hann fékk fyrirgjöf á fjærstöng frá Veigari Páli Gunnarssyni og renndi boltanum í netið, hans 10. mark fyrir landsliðið.  Tryggvi hafði fyrr í leiknum átt skalla í stöngina og skot í þverslá.

Fjórða markið og sitt fyrsta landsliðsmark gerði síðan Veigar Páll á 86. mínútu eftir sendingu frá engum öðrum en títtnefndum Tryggva Guðmundssyni, sem kórónaði frábæra frammistöðu sína með því að taka við fyrirliðabandinu af Eiði Smára Guðjohnsen þegar fyrirliðanum var skipt af leikvelli seint í leiknum.

Í heildina var frammistaða íslenska liðsins í leiknum mjög góð og greinilegt að leikmenn nutu sín vel á Laugardalsvellinum.  Menn léku knettinum vel á milli sín, opnuðu vörn Maltverja hvað eftir annað og hefðu með smá heppni getað bætt við fleiri mörkum.