• mið. 08. jún. 2005
  • Lög og reglugerðir
  • Agamál

Áfrýjunardómstóll KSÍ staðfestir leikbann Nóa Björnssonar

Knattspyrnusamband Íslands
ksi_merki

Áfrýjunardómstóll KSÍ staðfesti á þriðjudag leikbann Nóa Björnssonar, þjálfara Leifturs/Dalvíkur. Stjórn KSÍ úskurðaði Nóa í tveggja mánaða bann þann 14. apríl síðastliðinn, Dómstóll KSÍ hnekkti úrskurðinum, en Áfrýjunardómstóllinn hefur staðfest úrskurð stjórnar KSÍ.

Dómsorð Áfrýjunardómstólsins:  

"Leikbann Nóa Björnssonar þjálfara Leifturs/Dalvíkur er staðfest.  Stefndi, Leiftur/Dalvík, greiði sekt til áfrýjanda að fjárhæð kr. 24.000.

Kröfu stefnda um miskabætur úr hendi áfrýjanda er vísað frá dómi.

Málskostnaður er ekki dæmdur í máli þessu."

----------------------------------------------------

Dómur Áfrýjunardómstóls KSÍ

Ár 2005, þriðjudaginn 7. júní, kl. 17:00 er dómþing Áfrýjunardómstóls Knattspyrnusambands Íslands háð á skrifstofu Lögmanna Laugadal, Laugavegi 182, Reykjavík, af Sigurði G. Guðjónssyni, Guðmundi Péturssyni og Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni.

Fyrir er tekið mál nr. 1/2005:  Stjórn KSÍ gegn Leiftri/Dalvík.

Mættir eru Steinar Þór Guðgeirsson hrl. fyrir hönd áfrýjanda og Friðgeir Sigurðsson hdl. fyrir hönd stefnda.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur dómur.

I.

Mál þetta dæma Sigurður G. Guðjónsson, Guðmundur Pétursson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. Hinn áfrýjaða dóm kvað upp Hilmar Gunnlaugsson dómari við Dómstól Knattspyrnusambands Íslands þann 14. maí 2005. Steinar Þór Guðgeirsson hrl. áfrýjaði máli þessu þann 20. maí 2005 og gerir þessar kröfur fyrir hönd áfrýjanda:

Aðallega að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt og að ákvörðun áfrýjanda um leikbann Nóa Björnssonar þjálfara Dalvíkur/Leifturs frá 14. apríl til og með 13. júní 2004 og sekt stefnda að fjárhæð kr. 30.000 verði staðfest. Til vara að ákvörðun áfrýjanda um að sekta stefnda um kr. 30.000,00 verði staðfest.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk miskabóta að fjárhæð kr. 200.000 og málskostnaðar að fjárhæð kr. 300.000.

II.

Málavextir eru þeir að í leik stefnda og Fjarðarbyggðar í deildarbikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands þann 18. mars 2005 notaði stefndi leikmann KS, Saso Durasevic að nafni, þó svo að á leikskýrslu væri tilgreind nafn Kolbeins Arinbjarnarsonar. Dómari leiksins Ásgrímur Einarsson áritaði leikskýrsluna um það að samkvæmt samtali við formann stefnda Helga Indriðason hefðu menn vitað af þessu fyrir leikinn, sem þýðir að leikskýrslan hefur verið vísvitandi rangt útfyllt.

Þann 22. mars 2005 óskaði mótastjórn áfrýjanda eftir skýringum stefnda á því hvers vegna leikskýrslan hafði ekki verið rétt úfyllt. Frestur til andsvara var veittur til kl. 16:00 þriðjudaginn 29. mars 2005. Jafnframt var tilgreint í tölvupóstinum hvaða viðurlögum það gæti varðað samkvæmt reglugerð áfrýjanda um knattpyrnumót að nota ólöglega skipað lið og/eða fylla leikskýrslur ranglega út.

Stefndi svaraði fyrirspurn þessari með ódagsettu bréfi Helga Indriðasonar, formanns stefnda. Formaður stefnda viðurkennir þar að stefndi hafi notað Saso Durasevic í stað Kolbeins Arinbjarnarsonar og að Saso Durasevic hafi á þeim tíma ekki verið löglegur með liði hans, en mótmælir að leikskýrslan hafi verið vísvitandi rangt útfyllt.

Af greinargerð formanns stefnda verður helst ráðið að framkvæmd leiks stefnda og Fjarðarbyggðar hafi ekki verið í samræmi við 9. gr. reglugerð áfrýjanda um deildarbikarkeppnina, þar sem hann hafi orðið að taka að sér starf aðstoðardómara á leiknum til þess að tryggja að hann færi fram. Af þessum sökum hafi ekki gefist tími né tækifæri til að hafa leikskýrsluna rétta.

Með tölvupósti dagsettum 1. apríl er stefnda tilkynnt að Fjarðarbyggð teljist hafa unnið leikinn 3-0, samkvæmt reglugerð um deildarbikarkeppni karla. Síðan segir í tölvupóstinum: ,,Varðandi þann þátt sem snýr að meintri fölsun á leikskýrslu þá verður því máli vísað til stjórnar KSÍ.”

Með ógdagsettum tölvupósti til stefnda óskaði áfrýjandi eftir skriflegri greinargerð þjálfara stefnda um ástæður þess að leikskýrslan frá leik stefnda við Fjarðarbyggð hafi verið röng.

Stefndi fékk frest til greinargerðar til kl. 10:00 fimmtudaginn 14. apríl. Greinargerð barst frá þjálfara stefnda, Nóa Björnssyni, þann 12. apríl 2005. Í greinargerð sinni vísar þjálfarinn að mestu til framangreindrar ódagsettrar greinargerðar formanns stefnda varðandi ástæður þess að ákveðið hafi verið að nota Saso Durasevic í stað Kolbeins Arinbjarnarsonar, sem skráður var á leikskýrsluna.

Áfrýjandi ákvað á fundi sínum þann 14. apríl 2005 að úrskurða Nóa Björnsson þjálfara stefnda í leikbann frá 14. apríl til og með 13. júní og sektaði stefnda um kr. 30.000. Var stefnda tilkynnt ákvörðun þessi með bréfi dagsettu 15. apríl 2005. Ekki var þess getið í tilkynningu áfrýjanda að úrskurðarþolar ættu málsskotsrétt, sem þó verður að telja eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð af hálfu áfrýjanda.

Með bréfi dagsettu 16. apríl á Dalvík, sem sent var áfrýjanda og móttekið af honum þann 22. apríl 2005, tilkynnir stefndi að hann uni ekki ákvörðun áfrýjanda og óskar eftir því að áfrýjandi vísi málinu til dómstóls Knattspyrnusambands Íslands.

Með ódagsettri kæru, sem móttekin var þann 25. apríl 2005 af skrifstofu Knattspyrnusambands Íslands skaut stefndi ákvörðun áfrýjanda til dómstóls Knattspyrnusambands Íslands. Í niðurlagi kærunnar er beðist velvirðingar á því að hún sé flausturslega unnin og því kennt um að stefndi hafi fyrst í hádeginu daginn sem kæran var útbúin fengið að vita að kærufrestur rynni út þann sama dag.

Í kærunni er þess krafist að dómstóll Knattspyrnusambands Íslands hnekki úrskurði stjórnar Knattspyrnusambands Íslands frá 15. apríl s.l. (sic) og til vara að bann þjálfarans verði einskorðað við leiki í deildarbikarkeppninni.

Þó að nafn Nóa Björnssonar þjálfara stefnda hafi ekki verið tilgreint sérstaklega í kærunni ásamt nafni stefnda, verður engu að síður að líta svo á, eins og máli þessu er háttað, að hann hafi átt og eigi aðild að málskotinu til dómstóls Knattspyrnusambands Íslands.

III.

Óumdeilt er að í leik stefnda við lið Fjarðabyggðar í deildarbikarkeppni Knattspyrnusambands Íslands í knattspyrnuhúsinu Boganum á Akureyri þann 18. mars 2005 lék í treyju nr. 3 í liði stefnda leikmaður að nafni Saso Durasevic.

Saso Durasevic hafði ekki leikheimild með stefnda umræddan dag, þar sem ekki hafði verið tilkynnt um félagskipti hans til stefnda úr KS. Auk þess var nafn Saso Durasevic ekki að finna á leikskýrslu, sem undirrituð er af fyrirliðum og forráðamönnum liðanna fyrir leik.

Samkvæmt leikskýrslunni tilkynntu fyrirliði og forráðamaður stefnda að í treyju nr. 3 léki Kolbeinn Arinbjarnarson. Þetta gerðu forsvarsmenn stefnda þrátt fyrir að þeir vissu að Kolbeinn Arinbjarnarson mundi ekki geta mætt til leiks. Með vísan til þessa og áðurnefndrar áritunar dómara leiksins á leikskýrsluna, sem ekki hefur verið hnekkt er það niðurstaða dómsins að forystumenn stefnda hafi brotið gegn 3. lið gr. 4.3. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót.

Skiptir engu máli í þessu sambandi þó undirbúningur KSÍ fyrir leik stefnda og Fjarðarbyggðar hafi ekki verið eins og best verður á kosið um kappleiki. Áfrýjandi er æðsti aðili varðandi framkvæmd allra knattspyrnumála hér á landi sbr. 1. gr. laga um Knattspyrnusambands Íslands.

Ber áfrýjanda m.a. samkvæmt 11. tl. 17. gr. laganna, að líta eftir því, að lög og leikreglur KSÍ séu haldin. Meðal þeirra laga sem hér er átt við er reglugerð um deildarbikarkeppni KSÍ 2005.

Í 6. gr. reglugerðar þessara er kveðið á um, að henni til fyllingar séu knattspyrnulögin og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Í 4. kafla reglugerðar KSÍ, sem ber yfirskriftina ,,Mómæli, kærur, viðurlög og sektir” er kveðið á um viðurlög við því að nota ólöglega skipað lið, vísvitandi rangfærslu leikskýrslna, sektir og innheimtu sekta sbr. liði 3 og 4 í gr. 4.3. og liði 3, 4 og 10 í gr. 4.4. Af ákvæðum þessum leiðir, að áfrýjanda ber að fylgjast með framkvæmd allra knattspyrnumóta og beita þá viðurlögum, sem brotlegir gerast, nema refsivaldið sé sérstaklega skilið undan valdsviði áfrýjanda.

Því er ekki til að dreifa varðandi brot stefnda og starfsmanns hans Nóa Björnssonar á reglum deildarbikarkeppni KSÍ 2005.

Með vísan til þess sem að framan greinir er ákvörðun áfrýjanda frá 14. apríl 2005 staðfest varðandi leikbann Nóa Björnssonar.

Sekt Leifturs/Dalvíkur þykir hæfilega ákveðin kr. 24.000.

Dómsorð.

Leikbann Nóa Björnssonar þjálfara Leifturs/Dalvík er staðfest.

Stefndi Leiftur/Dalvík greiði sekt til áfrýjanda að fjárhæð kr. 24.000.

Sigurður G. Guðjónsson.

Guðmundur Pétursson.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

-------------------------------------------

4. ágúst 2005

Leiftur/Dalvík áfrýjaði úrskurðinum til Áfrýjunardómstóls ÍSÍ, sem vísaði málinu frá þar sem frestur til þess var liðinn.

Úrskurður Áfrýjunardómstóls ÍSÍ