Auðun og Bjarni Ólafur í landsliðshópinn
Auðun Helgason og Bjarni Ólafur Eiríksson hafa verið kallaðir í landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Möltu í undankeppni HM á miðvikudag. Auðun á að baki 29 A-landsleiki og hefur skorað eitt mark, en Bjarni Ólafur er í fyrsta skipti í hópnum.
Auðun, sem leikið hefur sem atvinnumaður í Noregi, Belgíu og Svíþjóð undanfarin ár, sneri heim til Íslands fyrir núverandi keppnistímabil og gekk til liðs við sitt gamla félag, FH, og hefur leikið vel fyrir liðið í fyrstu fjórum umferðum Landsbankadeildarinnar.
Bjarni Ólafur hefur aldrei verið í A-landsliðshópnum áður, en hann á að baki tvo leiki með U21 landsliðinu, árið 2003. Bjarni hefur leikið sérlega vel í sterkri vörn Valsmanna í Landsbankadeildinni, sem hafa fullt hús stiga eftir fjórar umferðir, líkt og FH-ingar.
Þeir Auðun og Bjarni Ólafur koma inn í hópinn nú, þar sem öll vörnin úr leiknum gegn Ungverjum er úr leik. Pétur Marteinsson meiddist illa í leiknum og verður líklega frá í nokkurn tíma. Kristján Örn Sigurðsson og Indriði Sigurðsson fengu báðir að líta sitt annað gula spjald í keppninni og verða því í leikbanni gegn Möltu, líkt og Ólafur Örn Bjarnason, sem fékk að líta rauða spjaldið í leiknum.
Heiðar Helguson var í leikbanni gegn Ungverjum, en verður væntanlega í hópnum á miðvikudag.