Ungverjar leika væntanlega 3-5-2 gegn Íslandi
Landslið Ungverja hefur gengið í gegnum miklar breytingar undir stjórn Lothars Matthäus, fyrrverandi fyrirliða þýska landsliðsins. Matthäus hefur gert leikskipulag liðsins mun markvissara og virðist vera að innleiða þýskan aga í leikmenn liðsins.
Reiknað er með að Matthäus stilli upp í leikkerfið 3-5-2 með Zoltan Gera sem leikstjórnanda á miðjunni og er Imre Szabics ætlað að leiða framlínu liðsins. Væntanlega mun Lázslo Bodnar stjórna vörninni fyrir framan Gábor Király.
Aðrir leikmenn í ungverska hópnum sem rétt er að fylgjast vel með eru Zsombor Kerekes, sem kom inn á sem varamaður og skoraði á móti Frökkum á dögunum, bræðurnir Gábor og Ottó Vincze, sem léku í fyrsta skipti saman í landsliðinu í gegn Frökkum, og Norbert Tóth, sem leikið hefur mjög vel í heimalandinu.
Byrjunarlið Ungverja verður ekki tilkynnt fyrr en á laugardag, líkt og byrjunarlið íslenska liðsins.