• fös. 03. jún. 2005
  • Agamál
  • Lög og reglugerðir

Fram dæmdur sigur gegn Grindavík

fram180
fram180

Dómstóll KSÍ hefur tekið fyrir kæru Fram gegn Grindavík vegna leiks í U23 keppni karla, sem fram fór þann 24. maí síðastliðinn.  Kröfur kæranda voru teknar til greina og var Fram dæmdur 3-0 sigur í leiknum og Grindavík gert að greiða sekt.

Dómurinn

Ár 2005, fimmtudaginn 2. júní er háð dómþing í Dómstól KSÍ  af Halldóri Frímannssyni dómara.

  Fyrir er tekið málið nr 5/2005

Knattspyrnufélagið Fram

gegn

Umf. Grindavík

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Dómur:

Mál þetta er höfðað með kæru dagsettri 30. maí 2005 sem barst skrifstofu KSÍ sama dag. Kærandi er Knattspyrnufélagið Fram, Safamýri 28, Reykjavík kærði Umf. Grindavík,  Austurvegi 3, Grindavík.

I.  Dómkröfur.

Þess er krafist að kæranda verði dæmdur sigur með markatölunni 3-0 í leik Fram og Grindavíkur í U23 B-deild karla, dags. 24. maí 2005 sem fram fór á Framvelli.

Málsatvik, málsástæður og lagarök kæranda:

“Þann 24. maí 2005 fór fram leikur á milli Fram og Grindavíkur í U23 liði B deild á Framvelli.  Leiknum lauk með jafntefli 1-1.  Samkvæmt meðfylgjandi leikskýrslu virðast tveir leikmann kærða ekki hafa leikheimild með kærða þegar leikurinn fór fram.  Þetta eru leikmennirnir Mario Mijatovic, kt. skráð 251080 og Mathias Jack, kt. skráð 150269.  Þar sem ofangreindir leikmenn höfðu ekki leikheimild hjá kærða þá telur kærandi að um skýrt brot á hlutgengisákvæði reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót, 1. mgr. greinar 1.2. sé að ræða, um að hlutgengir til þátttöku í knattspynumótum eru leikmenn sem eru félagar í því félagi sem þeir keppa með og uppfylla ákvæði reglugerðar KSÍ um félagaskipti leikmanna og stöðu félaga og leikmanna.  Kærandi telur að ofangreindir leikmann fullnægi ekki skýrum skilyrðum þessarar greinar, þar sem þeir eru ekki félagar í kærða og fullnægja ekki ákvæðum fyrrnefndar reglugerða.

Af fyrrnefndum sökum telur kærandi að lið kærða hafi mætt ólöglega skipað til leiks og með vísan til 1. mgr., greinar 4.3. í 4. kafla greinargerðar KSÍ um knattpyrnumót þá telst kærði hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3.

Með vísan til ofagnreinds telur kærandi að dæma beri honum sigur í leik gegn kærða í U23 liði B- deildar með markatölunni 3-0.”

II.

Hið kærða félag hefur fallist á kröfur kæranda í greinargerð sem dagsett er 31 maí s.l. en þar segir orðrétt:

"Okkur er og var ljóst að við spiluðum með ólöglega menn í þessum umrædda leik og ætlum ekki að halda upp neinum vörnum vegna þess heldur eingöngu skýra hvers vegna við gerðum þetta vísvitandi. “

III. Málsmeðferð.

Eins og mál þetta er vaxið sætir það flýtimeðferð skv. 8. grein laga um dómstóla KSÍ.    

IV. Niðurstaða.

Upplýst er í málinu og viðurkennt af hinu kærða félagi að leikmennirnir Mario Mijatovic nr. 17 á leikskýrslu og Mathias Jack nr 19 á leikskýrslu voru ekki með gilda leikheimild  með félaginu í leik liðanna sem fram fór 24. maí s.l.   Kærði hefur gengist við broti sínu og lýst því yfir að hann ætli ekki halda uppi vörnum í málinu.

Af ofangreindu er því ljóst að kærði mætti með ólöglega skipað lið til leiks í leik liðanna sem fram fór 24. maí s.l á Framvelli og lyktaði með markatölunni 1-1.   Brotið varðar við 1. mgr. 4.3 í 4. kafla reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót sem leiðir til þess að kærði dæmist tapa leiknum með markatölunni 3-0.   Jafnframt er kveðið á um það í  3. tl. 4.4 í 4. kafla að lið sem mætir ólöglega skipað til leiks skuli sæta sekt að upphæð allt að kr. 24.000,-  Eins og mál þetta er vaxið þykir hæfileg sekt kr. 12.000,- 

Kærði dæmist skv. þessu tapa ofangreindum leik með markatölunni 3-0 og skal kærði greiða kr. 12.000,- í sekt til KSÍ. 

 

DÓMSORÐ:

Úrslitum í leik Knattspyrnufélagsins Fram og Umf. Grindavík í U23 B-deild karla sem fram fór á Framvelli þann 24. maí s.l.. skal breytt þannig að Knattspyrnufélagið Fram dæmist hafa unnið leikinn 3-0.

Hinu kærða félagi Umf. Grindavík skal greiða kr. 12. 000.- í sekt til KSÍ.

                                                                                          Þannig fram farið

                                                                                          F.h. Dómstóls KSÍ

                                                                                          Halldór Frímannsson (sign)

Um áfrýjun:

Heimilt er að skjóta dómnum til áfrýjunardómstóls KSÍ, og er áfrýjunarfrestur til áfrýjunardómstólsins 5 dagar frá því dómur dómstóls KSÍ var upp kveðinn og skulu almennir frídagar ekki telja þar með.