• mán. 30. maí 2005
  • Agamál
  • Lög og reglugerðir

Úrskurður Dómstóls KSÍ

 

Ár 2005, laugardaginn 28. maí er dómþing Dómstóli KSÍ háð af Gunnari Guðmundssyni.

  

Fyrir er tekið málið nr 4/2005

Knattspyrnufélaginu Augnablik

gegn

Knattspyrnufélaginu Afríku

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Dómur:

Mál þetta er höfðað með kæru dagsettri 24. maí 2005 sem barst skrifstofu KSÍ sama dag. Kærandi er Knattspyrnufélagið Augnablik kt:660195-2899, en hið kærða félag er Knattspyrnufélagið Afríka kt:421202-2810,

 

I.  Dómkröfur.

Dómkröfur kæranda í kæru eru þær að úrslitum í leik Augnabliks og Afríku sem fram fór í Fífunni í 1. umferð Visa-bikar karla þann 20. maí sl. verði breytt og leikurinn verði dæmdur tapaður fyrir Afríku 3-0 vegna ólöglegs leikmanns hjá þeim.

Málsatvik, málsástæður og lagarök.

Málsatvikum, málsástæðum og lagarökum er þannig lýst í kæru:

Á leikskýrslu hjá Afríku er skráður leikmaðurinn Abdel Hamid Oulad Idriss númer 3 en það er ekki réttur maður heldur spilaði leikmaður að nafni Dejan Bilic í þeirri treyju.Hann fékk hins vegar ekki leikheimild fyrr en 21/5.

 

Samkvæmt lögum þá þurfa menn að vera löglegir í sínum liðum og bannað er að skrá aðra en þá sem skráðir eru hjá viðkomandi félagi.

Í raun er hér um tvennskonar brot að ræða: Annars vegar ólöglega rangur maður á leikskýrslu og svo spilar ólöglegur maður með þeim.

Til frekari sönnunar hefur kærandi lagt fram mynd af hinum brotlega leikmanni í leikmannatreyju hins kærða félags.

                                   

II.

Hið kærða hefur fallist á kröfur kæranda í greinargerð sem dagsett er 25.maí s.l. en þar segir orðrétt:

"Í ljósi þess að “bæði” ákæru atriði eru rétt, verðum við að bíta í það súra epli að viðkomandi leikur verði dæmdur okkur tapaður 3-0. 

Lið Afríku vil að eftirfarandi komi skýrt fram:

a)      Viðkomandi leikmaður Dejan Bilic fékk úthlutað varamannaskyrtu í byrjun og auðvitað hefði nafn hans átt að koma fram sem leikmaður nr. 13.   Hann átti ekki að spila, en þar sem leikmaður nr. 3 mætti ekki, þá lét aðstoðarþjálfari Afríku þennan Dejan spila leikinn. Við sem stöndum að Afríku liðinu þurfum að átta okkur betur á mikilvægi þess að leikskýrslur séu kláraðar fyrir leik, og tilkynna dómara ef seinkunn er á leikmönnum okkar.  Við lærum af þess og munum leggja okkur alla fram um að svona komi ekki fyrir aftur.

Þá hefði fyrirliði Afríku og þjálfari liðsins Zico átt að tilkynna aðstoðar-þjálfaranum  að þetta gengi, því það vantaði 1 dag upp á að viðkomandi leikmaður væri löglegur. Aðstoðaþjálfarinn var þess vegna í “góðri trú” þegar hann lætur leikmanninn byrja inn á. .

b)      Þessi nýi leikmaður vildi eðlilega spila og það skrifast á Zico að hafa ekki áttað sig á að þarna  munaði 1 degi á að leikmaður yrði orðinn löglegur.  Mikið stress og spenna í kringum þennan fyrsta leik er hans eina afsökun á þessum mistökum.

Eðlilega þykir okkur leikmönnum Afríku og aðstandendum liðsins þetta mjög leitt.  Við biðjumst afsökunar á þessu atviki og þar sem þetta er í fyrsta sinn sem svona mistök gerast hjá okkur vonum við að tekið verði tillit til þeirra staðreyndar.  Vissulega finnst okkur að við eigum að fara áfram, en því miður verður okkur dæmdur þessi leikur tapaður. Við vonumst til að dómstólinn sýni okkur skilning á ofangreindum atriðum."

 

III. Málsmeðferð.

Við skoðun á kærugögnum og leikskýrslu framangreinds leiks hefur dómsforseti komist að þeirri niðurstöðu að beita megi ákvæðum 8. greinar laga um dómstóla KSÍ varðandi flýtimeðferð. Var kærða gefinn kostur á að tjá sig um kæruefni sem hann og gerðir eins of fram kemur hér að framan.

 

 IV. Niðurstaða.

Upplýst er í málinu og viðurkennt af hinu kærða félagi að leikmaðurinn Dejan Bilic hafi ekki fengið leikheimild með hinu kærða félagi fyrr en hinn 21. maí. s.l.. Þrátt fyrir það lék hann umræddan leik gegn kæranda þann 20. maí s.l.

Telst framangreindur leikmaður ólöglegur samkvæmt orðalagi 1.tl. A-liðar í reglugerð KSÍ um félagaskipti og dæmist leikurinn tapaður hinu kærða félagi 3-0 samkvæmt 1.tl. greinar 4.3. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót

Kröfur kæranda eru því teknar til greina. Auk þess ber hinu kærða félagi að greiða sekt að fjárhæð kr. 12.000. til KSÍ vegna framangreinds brots sbr. 3. og 4. tl. greinar 4.3. í reglugerð KSI um knattspyrnumót.

 

DÓMSORÐ:

Úrslitum í leik Augnabliks og Afríku í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ í meistaraflokki karla sem fram fór þann 20. maí s.l.. skal breytt þannig að Augnablik er dæmt hafa unnið leikinn 3-0.

Hinu kærða félagi Afríku ber aðgreiða kr. 12. 000.- í sekt til KSÍ.

Þannig fram farið

Reykjavík 28. maí 2005

F.h. Dómstóls KSÍ

Gunnar Guðmundsson (sign.)

 

Um áfrýjun:

Heimilt er að skjóta dómnum til áfrýjunardómstóls KSÍ, og er áfrýjunarfrestur til áfrýjunardómstólsins 5 dagar frá því dómur dómstóls KSÍ var upp kveðinn og skulu almennir frídagar ekki telja þar með.