Starfsreglur aganefndar
Af gefnu tilefni vill KSÍ minna á starfsreglur aganefndar KSÍ, grein 8.4. sem fjallar um leikbönn leikmanna sem spila með tveimur liðum (eða fleiri) sama félags.
Eftirfarandi skýringar voru sendar til aðildarfélaga árið 2003 en eiga ennþá við.
---
Almennt:
Í eftirfarandi dæmum er rétt að hafa í huga að starfsreglur aganefndar gilda á sama hátt og áður. Þetta ákvæði (8.4.) á aðeins við þegar sama félagið sendir fleiri en eitt lið í sama mótið í tilteknum aldursflokki. Í stuttu máli má segja að þetta ákvæði hafi í för með sér að úrskurður aganefndar virki í tvennu lagi ef félagið sendir tvö lið, í þrennu lagi ef félagið sendir þrjú lið o.s.frv. Í því tilfelli að leikmaður fái x marga leiki í bann þá tekur hann út x leikja bann með hverju liði félagsins í mótinu (x leiki með liði 1, x leiki með liði 2 o.s.frv).
Á sama hátt og þegar leikmaður leikur fyrir 2 ólík félög í sama móti (eftir félagaskipti) þá gildir að spjöldin safnast á leikmanninn þó að hann leiki með liði 1 og liði 2 frá sama félaginu í sama móti.
Fyrsta:
Þróttur sendir 2 lið í Íslandsmót 3. flokks karla - A lið, Þróttur 1 og Þróttur 2.
Leikmaður Þróttar, Jón Jónsson, leikur með báðum liðum skv. hlutgengisreglum KSÍ.
Hann fær 2 áminningar með Þrótti 1 (önnur kom í leik í bikarkeppni 3. flokks karla) og aðrar 2 áminningar með Þrótti 2. Jón hefur þá fengið alls 4 áminningar sem telja saman skv. þessu ákvæði. Þetta leiðir til úrskurðar um 1 leiks bann. (Spjöld í bikarkeppninni í þessum aldursflokki telja með eins og ávallt).
Jón fær því úrskurð um 1 leiks bann hjá aganefnd (segjum á fundi 17. júní). Hann tekur út 1 leiks bann frá og með hádegi næsta föstudags 20. júní.
Þetta leikbann er tekið út þannig:
Þróttur 1 leikur á sunnudegi 22. júní og Jón er því í leikbanni - Þróttur 2 leikur á mánudegi 23. júní og Jón er einnig í leikbanni þar. (Hér skiptir ekki máli hvort leikir Þróttar 1 eða Þróttar 2 eru í Íslandsmóti eða bikarkeppni).
Þetta byggist á því að 1 leiks bann þýðir 1 leiks bann með báðum (öllum) liðum Þróttar í aldursflokknum. (Hér er rétt að minna á að greint er á milli brota leikmanns í A og B liðum sbr. 9.3. og þannig gæti Jón leikið með B liði Þróttar í 3. flokki þó að hann sé í banni með A liðum Þróttar í 3. flokki.)
Í stuttu máli: Jón fær úrskurð um 1 leiks bann 17. júní fyrir samtals 4 gul spjöld með Þrótti 1 og Þrótti 2 í A liðum í 3. flokki karla. Bannið tekur gildi á hádegi föstudaginn 20. júní. Jón tekur út leikbann sitt í næsta leik Þróttar 1 (22. júní) og næsta leik Þróttar 2 (23. júní), þ. e. einn leik með hvoru liði (hér skiptir ekki máli þó að Jón væri í raun ekki hlutgengur með Þrótti 2).
Annað:
Gerum ráð fyrir leikjadagskrá í 3. flokki karla (A lið): 13. júlí leikur Þróttur 1, 16. júlí Þróttur 2 og 18. júlí Þróttur 1.
Jón fær fyrstu brottvísun sína 13. júlí. Hann fer því sjálfkrafa í eins leiks bann. Þetta þýðir eins leiks bann með Þrótti 1 og eins leiks bann með Þrótti 2.
Hann er því í leikbanni 16. júlí (með Þrótti 2) og 18. júlí (með Þrótti 1) (Hér er Jón ekki hlutgengur með Þrótti 2 16. júlí skv. hlutgengisreglum KSÍ í aldursflokknum en engu að síður verður framkvæmdin eins og lýst er hér).