Glæsilegur sigur á Ítölum
Íslendingar unnu glæsilegan sigur á Ítölum í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í kvöld, nokkuð sem sjálfsagt fáa hafði dreymt um. Íslenska liðið byrjaði af krafti og skoraði tvö mörk á nokkurra mínútna kafla í fyrri hálfleik. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrst á 17. mínútu og Gylfi Einarsson bætti um betur þremur mínútum síðar. Þessi tvö mörk reyndust þau einu í leiknum og því frábær sigur íslenska liðsins á þreföldum heimsmeisturum Ítala staðreynd. Okkar piltar léku mjög vel í leiknum og stjórnuðu honum lengst af. Ítalska liðið náði aldrei að ógna íslenska markinu að ráði, enda lék okkar lið afar skipulega frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu.