Lettar tilkynna leikmannahópinn gegn Íslandi
Lettar hafa tilkynnt landsliðshóp sinn fyrir vináttuleikinn gegn Íslendingum í Riga 28. apríl næstkomandi. Lettar komust sem kunnugt er í lokakeppni EM 2004, sem fram fer í Portúgal í sumar, eftir sigur á Tyrkjum í umspili.
Meirihluti lettneska hópsins leikur í heimalandinu, en nokkrir af leikmönnunum hafa m.a. leikið með enskum liðum, þar á meðal Igors Stepanovs, sem lék um skeið með Arsenal, og Marian Pahars, sem leikur með Southampton, en að auki hafa Aleksander Kolinko, Imants Bleidelis, Andrejs Rubins og Andrejs Stolcers komið við sögu hjá enskum liðum.