Mexíkanar leika sterkan varnarleik
Landslið Mexíkó er sem stendur í 8. - 10. sæti á styrkleikalista FIFA og er ásamt Bandaríkjunum annað af sterkustu landsliðunum í Norður-Ameríku. Liðið þykir leika afar sterkan varnarleik, en hefur verið gagnrýnt nokkuð að undanförnu af fjölmiðlum þar í landi fyrir að skora ekki nógu mikið af mörkum. Til marks um styrkleika Mexíkana má nefna sigur þeirra á Gold Cup, sem fram fór í Bandaríkjunum og Mexíkó í júlí síðastliðnum, en liðið fékk ekki á sig eitt einasta mark í öllum fimm leikjum sínum, m.a. í tveimur leikjum gegn U23 liði Brasilíumanna, en þessi lið mættust bæði í riðlakeppni mótsins og í úrslitaleiknum. Í þessum 5 leikjum skoraði Mexíkó 10 mörk, en þar af komu fimm þeirra í leik gegn Jamaica í 8-liða úrslitum.