Ásgeir og Logi ráðnir landsliðsþjálfarar
Knattspyrnusamband Íslands hefur ráðið Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson sem þjálfara A- landsliðs karla. Þeir höfðu áður verið ráðnir tímabundið en nú hefur verið gengið frá því að þeir munu stjórna liðinu til haustsins 2005 eða út riðlakeppni HM 2006. Riðlakeppni HM 2006 hefst haustið 2004 og henni lýkur væntanlega í október 2005, en úrslitakeppnin fer síðan fram í Þýskalandi 2006. Ásgeir og Logi munu í sameiningu stjórna landsliðinu næstu tvö árin og er það von KSÍ að samstarf þeirra verði jafn árangursríkt og fyrstu tveir leikir liðsins undir þeirra stjórn. Nú þegar þrjár umferðir eru óleiknar í riðlakeppni EM 2004 hefur íslenska landsliðið möguleika á að komast áfram og spennandi leikir eru framundan í keppninni í haust. Stjórn KSÍ hafði í byrjun maí samþykkt að freista þess að fá erlendan þjálfara í starf landsliðsþjálfara en í ljósi góðs árangurs Ásgeirs og Loga hefur stjórn KSÍ samþykkt að ráða þá í starfið. |
Frá vinstri: Ásgeir Sigurvinsson, Eggert Magnússon, formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, og Logi Ólafsson. |