Ungverjar lagðir að velli
Ísland sigraði Ungverjaland með fjórum mörkum gegn einu í undankeppni EM á Laugardalsvelli í dag. Íslenska liðið var mun sterkara lengst af og komst í 2-0 með mörkum frá Erlu Hendriksdóttur og Olgu Færseth. Þær ungversku sóttu þó í sig veðrið og minnkuðu muninn skömmu fyrir leikhlé. Í síðari hálfleik var hið sama uppi á teningnum, íslenska liðið með yfirhöndina, en gestirnir sýndu þó ágætis spretti og eru greinilega með flinka leikmenn innanborðs. Ásthildur Helgadóttir gerði þriðja mark Íslands með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu og Margrét Lára Viðarsdóttir, sem lék sinn fyrsta A-landsleik í dag, innsiglaði góðan sigur Íslands með fjórða markinu. Lokatölur leiksins urðu því 4-1 og var sigurinn verðskuldaður, enda lék íslenska liðið mjög vel. Áhorfendur á Laugardalsvelli voru alls 2.327 og urðu þeir svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum, enda leikurinn bráðskemmtilegur.