100. landsleikur Rúnars
Viðureign Litháens og Íslands í undankeppni EM á miðvikudag verður væntanlega hundraðasti A-landsleikur Rúnars Kristinssonar, og verður hann þar með fyrstur allra Íslendinga til að ná þeim áfanga. Sífellt fleiri leikmenn frá löndum víðs vegar um heiminn ná nú að rjúfa 100 landsleikja múrinn, en engu að síður verður það að teljast mikið afrek hjá landsliðsmanni þjóðar sem aldrei hefur leikið í úrslitakeppni stórmóts að ná yfir 100 leiki fyrir þjóð sína. Rúnar lék fyrsta A-landsleik sinn í október 1987 þegar hann kom inn á sem varamaður í 0-2 tapi gegn liði Sovétríkjanna í Simferopol, þá 18 ára gamall. Hann hefur nú leikið 99 landsleiki og skorað í þeim 3 mörk. |