• mið. 16. okt. 2002
  • Landslið

Glæsilegur sigur á Litháum

Ísland lagði Litháen 3-0 í undankeppni EM í kvöld og er óhætt að segja að sigurinn hafi verið glæsilegur. Stuðningur áhorfenda var frábær og öruggt er að sá stuðningur hafi hvatt liðið til dáða gegn vel skipulögðu liði Litháa.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hagur okkar pilta vænkaðist á 20. mínútu þegar leikmanni Litháa var vikið af leikvelli. Mörkin í leiknum voru öll af glæsilegri gerðinni og komu öll eftir gott samspil íslenska liðsins. Heiðar Helguson gaf tóninn á 50. mínútu og Eiður Smári Guðjohnsen bætti við mörkum á 59. og 73. mínútu. Eiður hefði getað skorað þriðja marki sitt, en hann brenndi af vítaspyrnu á lokamínútunum. Sóknarleikur íslenska liðsins í síðari hálfleik var góður og óhætt að segja að áhorfendurnir 3.513 hafi skemmt sér konunglega. Fyrsti sigur Íslands í riðlinum er staðreynd og gott veganesti fyrir framhaldið.