U19 kvenna - Fyrsti leikur í undankeppni EM í dag
U19 landslið kvenna leikur í dag fyrsta leik sinn í undankeppni EM , en riðillinn fer fram í Podlasie Póllandi, sem er um 230 km frá Varsjá. Elva Dögg Grímsdóttir, ÍBV, meiddist á æfingu fyrir ferðina og fór því ekki með til Póllands, en í hennar stað kom Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir, KS. Mótherjarnir í dag eru lið Bosníu-Herzegóvínu, en leiknum hefur verið seinkað og hefst hann kl. 13:30 að íslenskum tíma. Ástæða seinkunarinnar er að rúta bosníska liðsins bilaði á leiðinni til Póllands og kom hópurinn því mun seinna í gær en áætlað var.
Lið Íslands gegn Bosníu-Herzegóvínu
Markvörður: Sandra Sigurðardóttir.
Varnarmenn: Inga Lára Jónsdóttir, Pála Marie Einarsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir (fyrirliði) og Málfríður Einarsdóttir.
Tengiliðir: Guðrún H. Finnsdóttir, Sólveig Þórarinsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Dóra Stefánsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir.
Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir.