Frábær stemmning á Laugardalsvelli
A-landslið kvenna lék í dag fyrri leik sinn gegn Englendingum í fyrri hluta umspils undankeppni HM. Frábær stemmning var á Laugardalsvelli og var liðið dyggilega stutt af tæplega 3.000 áhorfendum, sem er met á kvennalandsleik. Íslenska liðið náði tvisvar forystunni í leiknum, fyrst á 42. mínútu með marki frá Olgu Færseth, en Karen Walker jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks. Erla Hendriksdóttir kom Íslandi aftur yfir eftir 55 mínútna leik, en Walker jafnaði enn á 86. mínútu. Síðari leikur liðanna fer fram á St. Andrews leikvanginum í Birmingham 22. september næstkomandi.