Metsigur gegn Póllandi
A landslið kvenna vann í dag ótrúlegan 10-0 stórsigur á Póllandi í undankeppni EM. Um nýtt met er að ræða, en fyrra metið var sett í undankeppni EM árið 2000 þegar ísland sigraði Rúmeníu 8-0 á Laugardalsvellinum. Eins og tölurnar gefa til kynna var um algera einstefnu að ræða og mörkin voru hvert öðru glæsilegra. Margrét Lára Viðarsdóttir gerði þrennu og Hrefna Jóhannesdóttir setti tvö mörk, en þær Hólmfríður Magnúsdóttir, Erla Hendriksdóttir, Embla Grétarsdóttir, Ásthildur Helgadóttir og Dóra María Lárusdóttir gerðu eitt mark hver. Með sigrinum í dag settist Ísland í efsta sæti riðilsins, en næsti leikur liðsins er einmitt gegn Pólverjum á útvelli 27. september næstkomandi. |