• mið. 21. ágú. 2002
  • Landslið

Þrjú mörk í fyrri hálfleik sökktu Andorra

Tvö mörk frá Ríkharði Daðasyni og eitt frá Eiði Smára Guðjohnsen, öll í fyrri hálfleik, dugðu til öruggs sigurs gegn liði Andorra á Laugardalsvellinum í kvöld. Óhætt er að segja að gestirnir hafi leikið afar neikvæða knattspyrnu, töfðu m.a. leikinn við hvert tækifæri sem gafst, jafnvel meira í síðari hálfleik þrátt fyrir að vera þremur mörkum undir.

Íslenska liðið lék vel í fyrri hálfleik og skapaði sér fjölmörg marktækifæri, en síðari hálfleikurinn var heldur bragðdaufur og ekki mikil skemmtun fyrir hina tæplega 3.000 áhorfendur sem lögðu leið sína í Laugardalinn. Allir varamenn Íslands fengu að spreyta sig í leiknum, þar á meðal nýliðinn Kjartan Sturluson, sem leysti Árna Gaut Arason af í markinu um miðjan síðari hálfleik. Næsta verkefni íslenska liðsins er vináttulandsleikur gegn Ungverjum á Laugardalsvelli 7. september næstkomandi.