• fös. 02. ágú. 2002
  • Landslið

Jafntefli gegn Finnum - Norðurlandameistarar!

Íslendingar og Finnar gerðu 1-1 jafntefli á Norðurlandamóti U17 landsliða karla fyrr í dag. Hjálmar Þórarinsson, fyrirliði íslenska liðsins, skoraði mark Íslands á 19. mínútu en Finnar jöfnuðu leikinn strax á 21. mínútu. Jafnteflið tryggði Íslandi sæti í úrslitaleiknum sem fram fer á morgun á Skogsvallen í Luleå kl. 13:00 að íslenskum tíma. Íslenska liðið er þegar orðið Norðurlandameistari þar sem það er efst Norðurlandaþjóða, en leikurinn á morgun er gegn Englendingum sem sigruðu í öllum sínum leikjum í A riðli.

Leikur Íslands og Englands á morgun er um sigurinn á Opna Norðurlandamótinu. Noregur og Slóvakía leika áður um 3. sæti mótsins, Svíþjóð og Finnland um 5. sæti og frændþjóðirnar Danir og Færeyingar leika um 7. sætið.