Ísland komst áfram í undankeppni HM kvenna!
Íslenska kvennalandsliðið náði í dag markalausu jafntefli gegn Ítölum í undankeppni HM 2003, en leikið var í Arzachena á Sardiníu. Ítalska liðið sótti mun meira í leiknum, en íslenska vörnin var afar þétt og fengu Ítalir aðeins eitt alvöru marktækifæri í leiknum. Með jafnteflinu í dag tryggðu okkar stúlkur sér 2. sætið í riðlinum og þar með áframhaldandi þátttöku í keppninni og mæta þær væntanlega Englendingum í fyrri umferð umspils. Leikið er heima og heiman í ágúst eða fyrri hluta september.
Einu sinni áður í umspili
Ísland hefur einu sinni áður komist í umspil fyrir stórmót, en A landslið kvenna lék einmitt gegn Englandi í 16-liða úrslitum EM 1994. England sigraði 2-1 í báðum leikjunum og komst í úrslitakeppnina, en þar léku 8 lið.