• fim. 30. maí 2002
  • Landslið

Frábær sigur á Spánverjum

A landslið kvenna lagði Spán örugglega, 3-0, á Laugardalsvellinum í kvöld í undankeppni HM 2003. Tölurnar gefa rétta mynd af leiknum því íslenska liðið var mun sterkara á flestum sviðum. Markalaust var í hálfleik, en fyrsta markið kom strax í upphafi þess síðari. Skot að marki fór í varnarmann, breytti um stefnu og hafnaði í netinu. Annað markið kom á 60. mínútu, Margrét Ólafsdóttir skaut að marki og enn fór knötturinn í netið af varnarmanni. Ásthildur Helgadóttir gulltryggði svo sigurinn á 80. mínútu með góðum skalla. Ísland er nú í lykilstöðu fyrir síðasta leikinn í riðlinum, gegn Ítölum á útivelli 8. júní, því jafntefli dugar liðinu til að komast áfram í umspil.

Stuðningur áhorfenda skipti sköpum

2.240 manns lögðu leið sína í Laugardalinn til að styðja stelpurnar og kunnu þær svo sannarlega að meta það. Áhorfendametið var slegið svo um munaði, því fyrra metið var 1.250 manns í sigurleik gegn Ítölum í fyrra. Kærar þakkir fyrir frábæran stuðning!

Byrjunarliðið - Efri röð frá vinstri: Katrín Jónsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Erla Hendriksdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Ásthildur Helgadóttir og Edda Garðarsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Guðlaug Jónsdóttir, Rósa Júlía Steinþórsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir, Olga Færseth og Margrét Ólafsdóttir.