Brasilíumenn einfaldlega of sterkir
Brasilíumenn sýndu sannkallaða sambatakta þegar þeir lögðu Ísland í vináttulandsleik í Cuiabá í gærkvöldi, 6-1, fyrir framan 50.000 áhorfendur. Íslenska liðið átti aldrei möguleika gegn afar sprækum Brössum, sem gerðu sex mörk áður en Grétari Rafni Steinsyni tókst að minnka muninn, í sínum fyrsta landsleik, 15 mínútum fyrir leikslok. Árni Gautur Arason varði eins og berserkur í markinu, þrátt fyrir mörkin sex, en auk þess smullu nokkur skot í markstöngum íslenska liðsins, sem mátti sín lítils gegn mjög sterku liði heimamanna.
Lið Íslands: Árni Gautur Arason, fyrirliði (Ólafur Þór Gunnarsson 84.) - Sævar þór Gíslason (Guðmundur Steinarsson 84.), Gunnlaugur Jónsson, Ólafur Örn Bjarnason, Hjálmar Jónsson - Baldur Aðalsteinsson, Þórhallur Dan Jóhannsson (Þorvaldur Makan Sigbjörnsson 58.), Ólafur Stígsson, Einar Þór Daníelsson (Grétar Rafn Steinsson 58.), Haukur Ingi Guðnason, Grétar Hjartarson (Sigurvin Ólafsson 64.).