Fræðslufundur um aftanlæristognanir
Miðvikudaginn 13. febrúar verður haldinn fræðslufundur í Þróttarheimilinu undir yfirskriftinni: "Getum við fækkað aftanlæristognunum í knattspyrnu og dregið úr umfangi þeirra?" Fyrirlesari verður Árni Árnason, sjúkraþjálfari, en hann hefur á undanförnum árum rannsakað aftanlæristognanir, sem eru algengustu meiðslin í efstu deildum karla á Íslandi og í Noregi. Í fyrirlestrinum mun hann segja frá þessum rannsóknum, niðurstöðum þeirra og mögulegum forvörnum gegn þessum meiðslum. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og eru allir áhugasamir aðilar velkomnir.