EM U19 kvenna - 16 liða úrslit
16-liða úrslit Evrópukeppni U19 liða kvenna fer fram 15. - 19. nóvember næstkomandi og fer riðill Íslands fram í Kaupmannahöfn. Íslenska liðið er í riðli með heimamönnum, Tékkum og Englendingum og fer sigurvegari riðilsins ásamt 3 af 4 liðum með bestan árangur í öðru sæti í riðlunum fjórum í úrslitakeppni EM, sem fer fram í Svíþjóð í maí 2002.
Ljóst er að íslenska liðsins bíður erfitt verkefni, en bæði Danir og Englendingar hafa náð mjög góðum árangri í þessum aldursflokki. Góður árangur íslenska liðsins í forkeppninni gefur þó ástæðu til bjartsýni. Liðið sigraði fyrsta riðil sinn sem fram fór í Búlgaríu og náði síðan öðru sæti í Rússlandi í byrjun október sem dugði til áframhaldandi keppni.