Stórglæsilegur sigur á Tékkum
Íslenska landsliðið vann stórglæsilegan 3-1 sigur á stjörnum prýddu liði Tékka á Laugardalsvellinum í dag. Óhætt er að segja að fæstir áhorfenda hafi búist við þeirri veislu sem boðið var upp á. Tékkarnir voru sterkari framan af en eftir að Jan Koller var vísað af leikvelli á 40. mínútu tóku okkar menn leikinn í sínar hendur og Eyjólfur Sverrisson skoraði fyrsta mark Íslands á lokasekúndu fyrri hálfleiks með góðum skalla. Í síðari hálfleik var hið sama uppi á teningnum og Ísland sótti af krafti. Andri Sigþórsson skoraði annað mark Íslands á 65. mínútu ef stuttu færi, og Eyjólfur Sverrisson innsiglaði sigurinn með fallegu marki beint úr aukaspyrnu af um 30 metra færi. Tékkar náðu að klóra í bakkann undir lokin þegar þeir skoruðu með óverjandi skoti af löngu færi.
Óhætt er að segja að íslenska liðið hafi staðið sig frábærlega, piltarnir léku sem ein liðsheild og uppskáru eins og sáð var. Áhorfendur á Laugardalsvelli skemmtu sér konunglega og sungu "Ísland á HM" við miklar og góðar undirtektir.
Áfram Ísland!