Tékkar sigruðu 1-0 í Grindavík
Á Grindavíkurvelli fór fram leikur milli U21 landsliða Íslands og Tékklands í undankeppni EM. Mikið rok setti mark sitt á leikinn og leikmenn beggja liða voru í mestu vandræðum með að hemja knöttinn. Eina mark leiksins kom þegar um tuttugu mínútur lifðu af leiknum. Tékkar fengu hornspyrnu sem tekin var stutt og boltinn síðan sendur á fjærstöng þar sem leikmaður Tékka skallaði boltann í netið. Leikmenn Íslands heimtuðu vítaspyrnu skömmu síðar þegar Baldri Aðalsteinssyni var brugðið í ákjósanlegu marktækifæri, en ekkert var dæmt. Lyktir leiksins voru því þær að Tékkland sigraði 1-0 og eru þeir langefstir í 3. riðli.