• mið. 29. ágú. 2001
  • Landslið

Heimsóknir frá FIFA

Framkvæmdastjóri FIFA, Michel Zen Ruffinen, mun verða gestur KSÍ á landsleik Íslands og Tékklands í undankeppni HM 1. september næstkomandi. Hann mun koma til landsins á föstudag og halda aftur heim á leið á sunnudag. Zen Ruffinen mun eiga viðræður við forystu KSÍ og kynna sér starfsemi sambandsins, en hann varð framkvæmdastjóri FIFA 1998 þegar Sepp Blatter tók við forsetaembætti FIFA.

Fimmtudaginn 30. ágúst verður staddur hér á landi Jürg Nepfer frá FIFA, en hann er umsjónarmaður þróunarverkefnis FIFA, sem heitir FIFA Goal-Project. Ísland hefur verið samþykkt inn í verkefnið og mun Nepfer eiga viðræður við forystumenn KSÍ, auk þess sem hann mun kynna sér innviði knattspyrnuhreyfingarinnar og aðbúnað knattspyrnuiðkenda. Í raun má segja að hann sé hann hingað kominn til að meta stöðu íslenskrar knattspyrnu m.t.t. helstu þátta sem að henni snúa.