• þri. 05. jún. 2001
  • Landslið

Góður sigur á Búlgaríu

Landslið karla skipað leikmönnum 21 árs og yngri vann góðan 3-2 sigur á jafnöldrum sínum frá Búlgaríu í undankeppni EM í kvöld, en leikið var á Akranesvelli. Jóhannes Karl Guðjónsson kom inn í liðið á ný eftir að hafa tekið út leikbann gegn Möltu síðastliðinn föstudag, en Ísland sigraði þann leik einnig .

Leikurinn var jafn framan af þó svo íslenska liðið hafi haft frumkvæðið, en fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en á 40. mínútu. Jóhannes Karl skoraði þá stórglæsilegt mark, beint úr aukaspyrnu af um 25 metra færi. Íslenska liðið hóf síðari hálfleikinn af sama krafti og það lauk þeim síðari og Marel Baldvinsson kom okkar piltum í 2-0 á 52. mínútu. Þá var eins og leikmenn Búlgaríu hafi vaknað upp af vondum draumi, enda minnkuðu þeir muninn aðeins tveimur mínútum eftir mark Marels. Leikurinn jafnaðist nokkuð eftir þetta, Baldur Aðalsteinsson, leikmaður ÍA, kom Íslandi í 3-1 með góðu marki á 67. mínútu, Búlgarar minnkuðu aftur muninn á síðustu mínútu leiksins, en þar við sat. Skömmu áður en flautað var til leiksloka var einum leikmanni Búlgaríu vísað af leikvelli, fékk sitt annað gula spjald. Góður 3-2 sigur á Búlgörum staðreynd og íslenska liðið hefur nú náð að rétta hlut sinn í riðlinum eilítið, er með átta stig eftir sjö leiki.

Byrjunarliðið

Markvörður: Ómar Jóhannsson

Varnarmenn: Helgi Valur Daníelsson, Indriði Sigurðsson, Reynir Leósson, Atli Þórarinsson.

Tengiliðir: Baldur Aðalsteinsson, Þórarinn Kristjánsson (Veigar Páll Gunnarsson), Jóhannes Karl Guðjónsson, Stefán Gíslason.

Framherjar: Bjarni Guðjónsson (fyrirliði), Marel Baldvinsson (Orri Hjaltalín).