Ísland upp um tvö sæti á FIFA-listanum
Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) gaf í dag út styrkleikalista sinn í 5. sinn á árinu. Ísland hefur hækkað um tvö sæti frá því í síðasta mánuði, en liðið situr nú í 55. sæti listans með 546 stig. Mótherjar Íslands í undankeppni HM í byrjun júní, Malta og Búlgaría, eru í 130. og 43. sæti.
Það sem er kannski merkilegast við listann að þessu sinni er að lið Brasilíu hefur misst toppsætið í fyrsta sinn í sjö ár, eftir að hafa trónað á toppnum allt frá því HM 1994 í Bandaríkjunum lauk. Það eru heims- og Evrópumeistarar Frakka sem hafa loks komist upp fyrir Brassana, og eru aðeins fjórða þjóðin sem nær toppi listans frá því hann var fyrst kynntur, í ágúst 1993. Listann í heild sinni má skoða á heimasíðu FIFA.