Ályktunartillaga um fargjöld samþykkt á ársþingi KSÍ
Fyrir ársþing KSÍ um síðastliðna helgi var lögð tillaga um ályktun um fargjöld Flugfélags Íslands, en nýverið var gerður samningur milli ÍSÍ og Flugfélags Íslands sem fól í sér verulega hækkun á fargjöldum í innanlandsflugi. Ályktunartillagan hljóðaði þannig: "Ársþing KSÍ haldið í Reykjanesbæ 10. og 11. febrúar lýsir yfir óánægju sinni með mikla hækkun flugfargjalda hjá Flugfélagi Íslands sem ótvírætt mun gera rekstur knattspyrnufélaga erfiðari. Ársþingið felur stjórn KSÍ að óska eftir viðræðum við Flugfélag Íslands um endurskoðun þessarar hækkunar og þjónustu félagsins við knattspyrnuhreyfinguna."