Tap gegn Uruguay
Íslenska landsliðið tapaði fyrsta leik sínum í Sahara Millennium Cup á Indlandi gegn Uruguay. Lokatölur leiksins voru 2-1 Uruguay í vil, en öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik. Leikið var í Cochin, en hitastig á þeim tíma sem leikurinn fór fram er rúmlega 30°C.
Uruguay náði forystunni á 25. mínútu úr vítaspyrnu, eftir að Gunnlaugur Jónsson hafði gerst brotlegur. Þetta sló okkar menn nokkuð út af laginu og skoruðu Suður-Ameríkumennirnir annað mark á 29. mínútu með skalla af stuttu færi. Ísland minnkaði muninn strax á 30. mínútu, Þórhallur Hinriksson skoraði með góðum skalla eftir aukaspyrnu frá hægri kanti. Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum, þrátt fyrir hinn mikla hita, og voru Íslendingar nálægt því að jafna um miðjan seinni hálfleikinn þegar skoti Tryggva Guðmundssonar var bjargað á marklínu. Hvorugu liðinu tókst að bæta marki við og því sigraði Uruguay eins og áður segir, 2-1. Næsti leikur Íslands er á laugardaginn gegn Indverjum og hefst leikurinn kl. 11:30 að íslenskum tíma. Byrjunarlið Íslands í dag var þannig skipað:
Markvörður: Gunnleifur Gunnleifsson.
Varnarmenn: Bjarni Óskar Þorsteinsson, Sverrir Sverrisson, Gunnlaugur Jónsson og Kjartan Antonsson.
Tengiliðir: Ólafur Örn Bjarnason, Sigurvin Ólafsson, Þórhallur Örn Hinriksson, Tryggvi Guðmundsson og Sigþór Júlíusson.
Framherji: Guðmundur Benediktsson.