• fös. 29. des. 2000
  • Landslið

Knattspyrnufólk ársins

Stjórn KSÍ hefur útnefnt þau Hermann Hreiðarsson, leikmann Ipswich í Englandi, og Rakel Björk Ögmundsdóttur, leikmann Breiðabliks, knattspyrnumann og -konu ársins 2000.

Hermann Hreiðarsson er lykilmaður í íslenska landsliðinu og hefur verið mikilvægur leikmaður í öllum þeim félagsliðum sem hann hefur leikið með. Hermann hóf feril sinn sem leikmaður með ÍBV, en þaðan lá leiðin til Englands, þar sem hann hefur leikið við mjög góðan orðstír með Crystal Palace, Brentford, Wimbledon og nú með Ipswich, sem hann gekk til liðs við nú í sumar. Hermann er orðinn einn af leikreyndari mönnum íslenska landsliðsins, hefur leikið 34 leiki og skorað eitt mark.

Rakel Björk Ögmundsdóttir átti frábært knattspyrnuár, skoraði 22 mörk í 14 leikjum Landssímadeildar kvenna með Breiðabliki, auk þess að skora 4 mörk þegar íslenska kvennalandsliðið sigraði stöllur sínar frá Rúmeníu 8-0 á Laugardalsvellinum. Rakel gekk til liðs við Breiðablik 1997, en hún hefur nú leikið 26 leiki fyrir Blika í efstu deild og skorað í þeim 33 mörk. Rakel hefur leikið 10 landsleiki og skorað 7 mörk, en þar af gerði hún 6 mörk á þessu ári.