Óheppni í Varsjá
Pólverjar lögðu Íslendinga í vináttulandsleik í Varsjá í gærkvöldi með marki úr vítaspyrnu á 62. mínútu.
Íslenska liðið lék vel í fyrri hálfleik og átti mun hættulegri færi, m.a. átti Ríkharður Daðason skot af löngu færi sem fór í innanverða stöngina, skoppaði eftir línunni, í stöngina hinum megin og þaðan í fang markvarðar Pólverja, Adams Matysek.
Eftir hlé tóku Pólverjar öll völd á vellinum, íslenska liðið átti í erfiðleikum með að byggja upp spil og leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Íslands. Um miðjan síðari hálfleik var dæmd vítaspyrna á Íslendinga þegar boltinn fór í hönd Hermanns Hreiðarssonar. Úr spyrnunni skoraði Tomasz Frankowski og reyndist það eina markið í leiknum.
Síðustu 15 mínúturnar höfðu okkar menn yfirhöndina og hefðu átt að jafna á lokamínútu leiksins þegar Heiðar Helguson komst einn á móti markverði Pólverja. Arnar Grétarsson sendi góða stungusendingu inn fyrir vörnina, en slakt skot Heiðars var varið. Lokatölur leiksins urðu því 1-0, Pólverjum í vil.