Glæsilegur sigur á Svíum
Rúmlega 5.000 manns voru mættir á Laugardalsvöll í gærkvöldi til að fylgjast með leik Íslands og Svíþjóðar í Norðurlandamóti landsliða. Lyktir leiksins urðu þær að Ísland sigraði með tveimur mörkum gegn einu, eftir að jafnt hafði verið í hálfleik, 1-1. Svíarnir komust yfir með marki frá Johan Mjällby á 23. mínútu, en Ríkharður Daðason jafnaði með góðu marki á 38. mínútu eftir að hafa snúið varnarmenn Svía af sér. Það var svo Helgi Sigurðsson sem skoraði sigurmark Íslands úr vítaspyrnu á 83. mínútu, eftir að Eiður Smári Guðjohnsen hafði verið felldur í teignum.