Tengiliður við fatlaða stuðningsmenn

DAO – Disability Access Officer

Tengiliður við fatlaða stuðningsmenn (Disability Access Officer – DAO) er starfsheiti sem kemur til sem krafa gagnvart félagsliðum í gegnum leyfiskerfi UEFA og hefur UEFA hvatt knattspyrnusamböndin til að taka þetta upp og tilnefna tengilið við fatlaða stuðningsmenn landsliða. 

Tengiliðurinn

Tengiliður milli fatlaðra stuðningsmanna landsliða Íslands í knattspyrnu og KSÍ (DAO) er skipaður af KSÍ.  DAO þarf að hafa þekkingu á því umhverfi sem stuðningsmenn lifa og hrærast í, enda eldheitur stuðningsmaður sjálfur, og vera sérstakur áhugamaður um málefni fatlaðra stuðningsmanna.  DAO er sjálfboðaliði í þessu hlutverki og þiggur ekki laun fyrir (líkt og tengiliður við (ófatlaða) stuðningsmenn).  

Skarphéðinn GUðmundsson

Skarphéðinn Guðmundsson (dao@ksi.is) er tengiliður KSÍ við fatlaða stuðningsmenn landsliða.

 

Hlutverk

Hlutverk tengiliðs við fatlaða stuðningsmenn er að halda utan um stuðning/aðstoð við fatlaða stuðningsmenn. DAO fylgist með því að boðið sé upp á aðgengilega aðstöðu og þjónustu á landsleikjum, s.s. aðgengi að viðburðinum sjálfum (miðar og annað), aðgengi að salerni, aðgengi að veitingum og annarri aðstöðu og þjónustu. DAO þarf einnig að fylgjast með því að aðgengi að upplýsingum sé eins og best verður á kosið. DAO starfar í nánum tengslum við öryggisstjóra í aðdraganda leikja og á leikdegi eins og þörf er talin á.

DAO sækir fræðsluviðburði og vinnustofur eins og við á, m.a. á vegum UEFA og/eða CAFE (Centre for Access to Football in Europe) og er tengill KSÍ við DAO hjá öðrum knattspyrnusamböndum, auk þess að sinna fræðslu og upplýsingagjöf um málefni fatlaðra stuðningsmanna á knattspyrnuleikjum innanlands til aðildarfélaga KSÍ eða annarra.