Sjálfbærnivegferðin

Hvað er sjálfbærni?  Um hvað er verið að tala?  Mörg íslensk knattspyrnufélög eru að taka þátt í sjálfbærnivegferðinni, jafnvel ómeðvitað, og hvert og eitt félag þarf að finna sína leið á þeirri vegferð.

Á vef HÍ má lesa eftirfarandi um sjálfbærni:  „Hinar þrjár stoðir sjálfbærni eru samfélag, náttúra og efnahagur. Náttúra og umhverfi eru vissulega undirstaða þess að sjálfbærni verði náð enda setur náttúran umsvifum okkar mannfólksins mjög ákveðnar skorður, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Sjálfbærni er þrátt fyrir það mun víðfeðmara hugtak en að það snúist einungis um náttúru og umhverfi. Hugtakið snertir heilsu og vellíðan, félagslegt réttlæti, menningarmál og efnahagslíf. Sjálfbær þróun leggur áherslu á mikilvægi heildarsýnar og langtímahugsunar.

Sjálfbærni getur verið svo margt og getur skipt svo miklu máli.  Að velja að ferðast með rútu í stað þess að fara á einkabílum.  Að velja að ferðast með ferju og/eða keyra í stað þess að fljúga.  Að taka utan um sjálfboðaliða félagsins, fela þeim skýrt afmörkuð verkefni og hlutverk, umbuna þeim og sjá til þess að öllum líði vel.

Sjálfboðaliðar leika lykilhlutverk í íþróttahreyfingunni og eru í raun lífæð hvers félags. Við þurfum að finna leiðir til að gefa öllum tækifæri til að taka þátt í starfinu, þurfum að tryggja að allir sem taka þátt hafi raunverulegt hlutverk og tækifæri til að gefa af sér. 

Í myndbandinu heimsækjum við ÍBV og ræðum m.a. við þjálfara meistaraflokksliða kvenna og karla um sjálfbærnivegferð félagsins og mikilvægi sjálfboðaliða í starfinu.

Jón Ólafur Daníelsson þjálfari hjá ÍBV: „Ég held að hvert og eitt félag þurfi á hverjum degi að hugsa: Hvernig get ég hugsað betur um sjálfan mig".

Hermann Hreiðarsson þjálfari hjá ÍBV: „Láta öllum líða vel og hafa hlutverk hjá klúbbnum. Án sjálfboðavinnu og án félagsmanna þá væri í raun ekkert af þessu mögulegt“.