Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ
Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ eru ný verðlaun sem standa mótshöldurum knattspyrnumóta yngri flokka til boða í sumar. Með verðlaununum viljum við verðlauna háttvísi og heiðarlega framkomu allra sem að mótum koma. Á þetta fyrst og fremst við leikmenn, en ekki síður þjálfara, foreldra, áhorfendur og aðra aðstandendur.
Hvernig sýnum við háttvísi?
Hér að neðan má sækja plakat sem sýnir það með einföldum hætti.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vef Landsbankans hér að neðan:
Nokkur góð ráð til að sýna háttvísi
Starf dómarans er vandasamt, hann reynir að fylgjast með öllu sem gerist á vellinum og þarf alltaf að gæta þess að vera hlutlaus. Þess vegna er góð regla að þakka dómaranum fyrir að leik loknum.
Kurteisi er mikilvæg allsstaðar, líka inni á vellinum, þótt stundum færist hiti í leikinn. Dómarar taka oft frekar mark á þeim sem sýna kurteisi þegar þeir tala og þegar við sýnum mótherjum kurteisi þá er líklegra að þeir sýni okkur virðingu á móti.
Þjálfarar og dómarar hafa sitt hlutverk og gera yfirleitt sitt besta. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála þeim en þegar dómarar og þjálfarar taka sínar ákvarðanir verður að virða þær. Munum að það þýðir ekki að deila við dómarann.
Mótherjar okkar eru alveg eins og við, bara í öðru liði. Þau hafa lagt mikið á sig áður en þau komu inn á völlinn og vilja sigra alveg eins og aðrir. Fyrir þeim erum við mótherjar og þau samherjar. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga inni á vellinum. Og hver veit, kannski ganga þau til liðs við þitt lið seinna!
Reglur leiksins tryggja að hann fari fram á sanngjarnan hátt og eru til að skera úr um vafaatriði. Svo eru óskráðar reglur sem gilda til dæmis um það hvernig maður kemur fram þegar eitthvað óvænt kemur upp á. Það skiptir máli að fara eftir leikreglunum þótt stundum geti verið freistandi að brjóta þær. Ef enginn færi eftir reglunum yrði íþróttin fljótt mjög leiðinleg.
Það gerist margt í heilum fótboltaleik. Þegar leiknum er lokið er mikilvægt að muna að hann er búinn og þakka mótherjunum með handabandi fyrir góðan leik. Þannig sýnum við þeim virðingu og fáum virðingu til baka.
Það er frábær sigurtilfinning sem fylgir því að hafa unnið leik heiðarlega á þinni eigin getu og hæfileikum. Þess vegna er mikilvægt að hafa alltaf í huga frá því að leikurinn hefst og þar til hann endar að vinna hann með því að sýna háttvísi allan tímann!