Barna- og unglingaráð
Ráðstefnan “Deilum því sem vel er gert”, þar sem barna- og unglingaráð og aðrir sem tengjast yngri flokka starfi komu saman, var haldin í höfuðstöðvum KSÍ laugardaginn 14. Janúar 2023. Markmiðið með ráðstefnunni var að félögin myndu læra hvert af öðru og koma af stað samtali sín á milli.
Átta erindi voru flutt. Arnar Bill Gunnarsson fræðslustjóri KSÍ fór yfir hlutverk yfirþjálfara yngri flokk byggt á niðurstöðum Mastersverkefnis Aðalbjarnar Hannessonar frá HR. Arnar sagði meðal annars frá, út frá niðurstöðum rannsóknar Aðalbjarnar, að yfirþjálfarar teldu sig oft vera að sinna vinnu sem þeir ættu í raun ekki að vera að sinna og tók dæmi um hvernig hægt væri að sporna við þessu.
Halldór Breiðfjörð Jóhannesson, formaður dómaranefndar KSÍ, flutti erindi um dómaramál hjá félögunum. Hann fór m.a. yfir hvað félög geta gert til að fjölga dómurum innan sinna raða og hversu mikilvægt er að sýna starfi dómara virðingu.
Jóhann Þór Jónsson, formaður Barna- og unglingaráðs hjá Breiðablik, sagði frá sjálfboðaliðum innan Breiðabliks með áherslu á Símamótið. Hann fór yfir mikilvægi þess að sjálfboðaliðar viti sitt hlutverk og að endurgjöf til þeirra sé mikilvæg.
Þorvar Hafsteinsson frá barna- og unglingaráði HK sagði frá netfjáröflun HK. Vefverslun HK stendur straum af kostnaði við ferðalög, mótagjöld, búninga og margt fleira. Velkomið er að hafa samband við Þorvar í netfangið thorvar@birtingaholt.is.
Að hádegismat loknum var hópavinna þar sem rætt var hvað ætti að vera í fyrirhugaðri handbók um rekstur barna- og unglingaráða. Þar kom meðal annars fram skýr rammi um starfsemi barna- og unglingaráða, leiðbeiningar fyrir nýja meðlimi barna- og unglingaráða, tengiliðir við KSÍ, leiðbeiningar um mót og leiðbeiningar um styrkleikaröðun á yngriflokka mótum.
Eftir hádegismat sögðu Linda Dagmar og Páll Guðmundur frá Norðurálsmótinu á Akranesi. Þau töluðu m.a. um fjölda leikja, mótsgjald og fleira en mótið hefur verið haldið frá árinu 1985 við góðan orðstír.
Linda Guðmundsdóttir, íþróttafulltrúi Þórs á Akureyri, sagði frá hvernig þau innleiða hugarþjálfun í starf sitt. Iðkendur og þjálfarar Þórs fá fyrirlestra, verkfæri og fræðslu frá íþróttasálfræðingi. Unnið er með þetta þvert á deildir og þannig myndað samtal á milli þjálfara á milli deilda.
Páll Árnason, annar af yfirþjálfurum Stjörnunnar, sagði frá hvernig Stjarnan undirbýr unga iðkendur fyrir meistaraflokk með skiptingu yngri flokka í Stjörnustarf og afreksstarf. Búið er að mynda ákveðið módel sem unnið hefur verið eftir síðastliðin tvö ár kvenna megin. Næsta skref er að yfirfæra hugmyndafræðinga yfir á karladeildina.
Jörundur Áki Sveinsson, sviðsstjóri knattspyrnusviðs KSÍ, lokaði deginum með nokkrum orðum um starfsemi knattspyrnusviðs. Sagði hann meðal annars frá landsliðsstiganum og hvernig félögin geta hjálpað landsliðsþjálfurum í sinni vinnu t.d. með umgjörð leikja og samtali við landsliðsþjálfara.
KSÍ stefnir á að gefa út handbók um starfsemi Barna- og unglingaráða í samstarfi við félögin á næstu mánuðum.
Hér að neðan má nálgast upptöku frá deginum og kynningarnar frá ráðstefnunni.
Upptaka af ráðstefnunni á Youtube: Deilum því sem vel er gert - YouTube
Dómaramál – Halldór Breiðfjörð Jóhannsson - Utanumhald um dómaramál hjá félögunum.
Fjáraflanir – Þorvar Hafsteinsson segir frá netfjáröflun HK.