Trans börn og íþróttir
Árið 2019 voru samþykkt lög nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði sem voru mikil réttarbót fyrir trans fólk og kveða m.a. á um breytingar á skráningu kyns, nokkuð sem íþróttahreyfingin þarf að huga að. Undanfarin ár hafa fleiri trans börn stigið fram á Íslandi en hér áður fyrr og vill KSÍ tryggja að þau upplifi sig velkomin og örugg í fótboltanum.
KSÍ ákvað því að fá upplýsingar um hvernig best væri að taka á móti og halda utan um þennan hóp innan knattspyrnuhreyfingarinnar og fékk Svandísi Önnu Sigurðardóttur, sérfræðing í hinsegin- og kynjajafnréttismálum til þess að útbúa fræðslu um trans börn og íþróttir. Í fræðslunni fer Svandís Anna yfir nokkur grundvallaratriði og ræðir hvað þarf að gera til þess að trans börn njóti sín í íþróttum. Einnig fjallar hún um lög um kynrænt sjálfræði og hinseginvænni menningu í íþróttum. KSÍ hvetur aðildarfélög til að kynna sér fyrirlesturinn, deila honum innan sinna raða og innleiða þau atriði sem fjallað er um.
Einnig vill KSÍ benda á að félög geta fengið til sín hinseginfræðslu til þess að kafa dýpra í þessi mál og ræða þau nánar. Hér að neðan má sjá hlekki á nokkrar síður þar sem hægt er að finna frekari upplýsingar og leita ráðgjafar - fyrir félög eða fyrir börn og forsjáraðila þeirra.
- Könnun Reykjavíkurborgar um hinsegin fólk og íþróttir (2020).
- Trans börn og íþróttir - Bæklingur gefinn út af Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands (2020).
- Trans börn og skólar - Upplýsingavefur Reykjavíkurborgar með hugtökum, gátlistum og fræðsluefni. Á vefnum er að finna stuðningsáætlun fyrir trans börn sem væri hægt að útfæra fyrir íþróttafélög.
- Hvað er hinsegin? - Upplýsingabæklingur á íslensku og ensku sem útskýrir helstu hinsegin hugtökin.
- Hinsegin frá Ö-A - Upplýsingavefur um hinsegin hugtök og málefni.
- Samtökin ’78 - Félag hinsegin fólks á Íslandi sem býður upp á ráðgjöf, fræðslu og stuðningshópa fyrir trans fólk og aðstandendur þess.
- Trans barnið - Handbók fyrir fjölskyldur og fagfólk
- Trans Ísland - Hagsmunafélag trans fólks á Íslandi.