Lyfjamál

Knattspyrnusamband Íslands tekur skýra afstöðu gegn allri misnotkun lyfja/efna og notkunar á bönnuðum aðferðum sem stuðla eiga að bættum árangri í íþróttum.

KSÍ leggur ríka áherslu á að knattspyrnan sé laus við lyfjamisnotkun (doping). Lyfjamisnotkun getur verið mjög skaðleg heilsunni, grefur undan íþróttahugsjóninni og hindrar keppni á jafnréttisgrundvelli.

Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) og Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hlíta reglum Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) varðandi lyfjamál í íþróttum.

Mikilvægt er að íþróttamenn sem þurfa að nota lyf geti það.  Mjög mikilvægt er að bestu klínísku starfsvenjur og nauðsynlegar rannsóknir séu á bak við greiningar þar sem nota þarf lyf/efni af bannlista sem meðferð.

Þarf að nota lyf/efni af bannlista WADA er skilyrði að ekki sé hægt að nota önnur lyf sem ekki eru á bannlista.  Undanþágu getur þurft að sækja um áður en meðferð hefst, eftir að meðferð hefst eða jafnvel einungis sé íþróttamaðurinn boðaður í lyfjapróf.  Finnist hjá íþróttamanni við lyfjapróf lyf/efni sem eru á bannlista, eða ummerki um bannaða aðferð, getur það leitt til allt að fjögurra ára æfinga- og keppnisbanns.

Neysla fæðubótarefna getur verið varasöm. Íþróttamenn hafa fallið á lyfjaprófum eftir inntöku fæðubótarefna.  Rannsóknir hafa sýnt að fæðubótarefni geta verið menguð af efnum sem eru á bannlista WADA.  Ekki er alltaf hægt að treysta því að öll innihaldsefni komi fram utan á pakkningum. Greinist bannað efni við lyfjapróf, eftir neyslu fæðubótarefna, er það alfarið á ábyrgð íþróttamannsins.

Misjafnar reglur gilda fyrir leikmenn í knattspyrnu eftir því hvort að þeir taki þátt í alþjóðlegum verkefnum og í hvaða deildum þeir leika.

Veljið leiðbeiningar eftir því sem við á;

 

Tenglar:

Vefur Lyfjaeftirlitsins:    http://www.lyfjaeftirlit.is

UEFA:               http://www.uefa.org/footballfirst/protectingthegame/antidoping/index.html

WADA:              http://www.wada-ama.org/en/