Bergið Headspace - Tæklum tilfinningar
Bergið Headspace og KSÍ standa saman að verkefninu „Tæklum tilfinningar“. Um er að ræða tvíþætt verkefni, annars vegar þar sem aðildarfélögum KSÍ býðst að fá fræðsluerindi frá Berginu fyrir unga þátttakendur (leikmenn, þjálfara eða dómara), og hins vegar þar sem ungmennum hjá aðildarfélögum KSÍ stendur til boða að koma í einstaklingsviðtal hjá Berginu. Verkefnið, sem miðast við 2. og 3. flokk og er til eins árs, hefst sumarið 2024 og stendur til sumars 2025.
Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Markmið Bergsins er að bjóða upp á lágþröskuldaþjónustu með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Í Berginu er lagt upp með að skapa notalegt og öruggt umhverfi fyrir ungt fólk sem vill fá aðstoð fagfólks og notenda með fjölbreytta reynslu. Í verkefninu „Tæklum tilfinningar“ felst fræðsla um geðheilbrigði og forvarnir fyrir ungmenni þar sem dregið er fram hversu jákvæð og mikilvæg áhrif þátttaka ungmenna í íþróttum getur haft, þegar kemur að forvörnum og mikilvægum félagslegum þroska. En jafnframt þarf að gefa því gaum að þátttöku í íþróttum geti fylgt mikið álag, streita og pressa. Ungmenni taka þátt í fótbolta á ólíkum forsendum og vegna þess hve misjafn bakgrunnur fólks er geta ólíkar aðstæður og atvik valdið því að óhjálplegum aðferðum er beitt til að takast á við erfiðleika. KSÍ og Bergið vonast til að fræðslan skilji eftir það veganesti að hægt sé að beita betri aðferðum, leita sér aðstoðar og minnka kröfur þegar það á við.
Eins og fram kemur í stefnu KSÍ um samfélagsleg verkefni lítur Knattspyrnusamband Íslands á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn. Verkefnið „Tæklum tilfinningar“ er í samræmi við þá stefnu og jafnframt í samræmi við heildarstefnumótun KSÍ, þar sem fram kemur að samfélagsleg verkefni KSÍ eigi að miða að því að gefa aðildarfélögum og þeirra fulltrúum (iðkendum og öðrum) tækifæri til að taka þátt í og njóta góðs af verkefnunum.