• mið. 24. apr. 2024
  • Lög og reglugerðir

Úrskurðir í málum nr. 1 og 2 2024 kveðnir upp

Aga- og úrskurðarnefnd hefur kveðið upp úrskurð í máli nr. 1/2024 og í máli nr. 2/2024. Hefur KFK verið gert að sæta sekt að upphæð kr. 190.000,- og Hvíta Riddaranum verið gert að sæta sekt að upphæð kr. 160.000,-. Þá hefur þjálfara KFK og aðstoðarþjálfara Hvíta Riddarans verið gert að sæta leikbanni með viðkomandi félögum í keppnum á vegum KSÍ í þrjá mánuði.

Í niðurstöðukafla í máli nr. 1/2024 segir m.a.:

„Óumdeilt er að leikmenn KFK, Benedikt Jóel Elvarsson og Sigurður Orri Magnússon, voru ekki hlutgengir í umræddum leik sökum leikbanns. Var lið KFK því ólöglega skipað til leiks og skal sæta sekt að fjárhæð 90.000 kr.“

[…]

“Í málinu er óumdeilt að umræddir leikmenn kærða sem voru í leikbanni voru ekki skráðir á leikskýrslu en spilaðu leikinn og voru aðrir leikmenn, sem ekki spilaði leikinn, skráðir á skýrslu í þeirra stað. Telst umrædd háttsemi fela í sér fölsun á leikskýrslu. Er um sjálfstætt brot að ræða sem samkvæmt grein 36.3 í reglugerð um knattspyrnumót varðar sektum allt að kr. 100.000 í meistaraflokki, sé um vísvitandi brot að ræða.”

Telur aga- og úrskurðarnefnd ljóst, miðað við gögn málsins, að KFK hafi vísvitandi ranglega fyllt út leikskýrslu í leik Hvíta Riddarans og KFK með því að falsa nafn og kennitölu þátttakenda. Í samræmi við grein 36.3 í reglugerð um knattspyrnumót skal því KFK til viðbótar framangreindri sekt sæta sekt að fjárhæð kr. 100.000.

Í málinu liggur fyrir viðurkenning af hálfu kærða að hann hafi ritað undir leikskýrsluna sem þjálfari KFK og afhent hana dómara leiksins. Með undirritun sinni tók kærði, sem forráðamaður KFK, ábyrgð á innihaldi skýrslunnar og að hún væri rétt úr garði gerð. Þeirri ábyrgð getur hann ekki varpað á leikmann liðsins. Breytir hér engu um ábyrgð kærða sú staðhæfing hans að hann hafi ekki lesið skýrsluna enda bar honum að tryggja að leikskýrslan væri rétt áður en hann staðfesti hana með undirritun sinni. Þá getur kærði heldur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað af leikbanni þeirra tveggja leikmanna sem spiluðu umræddan leik enda lágu þær upplýsingar fyrir þremur dögum fyrir umræddan leik.”

[…]

“Að öllu framangreindu virtu, er það mat aga- og úrskurðarnefndar að kærði, þjálfari KFK, beri ábyrgð á fölsun leikskýrslu í leik í leik Hvíta Riddarans gegn KFK, sem fram fór þann 22. mars 2024, í riðli 3 í B deild Lengjubikars KSÍ. Með vísan til greinar 36.4, alvarleika brotsins og þess að brotið er framið í deildarbikarkeppni KSÍ og að teknu tilliti til gagna málsins í heild, skal þjálfari KFK sæta leikbanni í leikjum KFK í keppnum á vegum KSÍ í 3 mánuði.”

Í niðurstöðukafla í máli nr. 2/2024 segir m.a.:

“Óumdeilt er að leikmaður Hvíta Riddarans, Guðbjörn Smári Birgisson, var ekki hlutgengur í umræddum leik sökum leikbanns. Var lið Hvíta Riddarans því ólöglega skipað til leiks og skal sæta sekt að fjárhæð kr. 60.000.”

[…]

„Telur aga- og úrskurðarnefnd ljóst, miðað við gögn málsins og skýra viðurkenningu kærða, að Hvíti Riddarinn hafi vísvitandi ranglega fyllt út leikskýrslu í leik Hvíta Riddarans og KFK með því að falsa nafn og kennitölu þátttakanda. Hefur Hvíti Riddarinn gengist við brotinu og vísa til þess í greinargerð sinni að leikmanninum hafi verið spilað undir öðru nafni. Í samræmi við grein 36.3 í reglugerð um knattspyrnumót skal því Hvíti Riddarinn til viðbótar framangreindri sekt sæta sekt að fjárhæð kr. 100.000.“

[…]

„Með vísan til framangreinds er það mat aga- og úrskurðarnefndar að aðstoðarþjálfari Hvíta Riddarans beri ábyrgð á fölsun leikskýrslu í leik í leik Hvíta Riddarans gegn KFK, sem fram fór þann 22. mars 2024, í riðli 3 í B deild Lengjubikars KSÍ. Með vísan til greinar 36.4, alvarleika brotsins og þess að brotið er framið í deildarbikarkeppni KSÍ og að teknu tilliti til gagna málsins í heild og þeirrar stöðu sem kærði, Ísak gegnir innan Hvíta Riddarans, skal umræddur aðstoðarþjálfari sæta leikbanni í leikjum Hvíta Riddarans í keppnum á vegum KSÍ í 3 mánuði. Leikbann Ísaks Ólafssonar tekur gildi við uppkvaðningu úrskurðar.“

Í ljósi þess að bæði lið KFK og lið Hvíta Riddarans voru ólöglega skipuð í leiknum ákvað aga- og úrskurðarnefnd að úrslit leiks skyldu látin standa óhögguð þrátt fyrir orðalag ákvæðis gr. 11.2 í reglugerðinni, um að lið sem noti leikmann í leikbanni teljist hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3, nema tap hafi verið stærra.

Úrskurður í máli nr. 1/2024 
Úrskurður í máli nr. 2/2024