• 02.07.2014 00:00
  • Pistlar

Fyrirmyndir barnanna

Geir Þorsteinsson
Geir-Thorsteinsson-April-2011-minni

Eins og alþjóð veit stendur nú yfir úrslitakeppni HM í knattspyrnu í Brasilíu.  Landsmenn eru límdir við skjáinn og allir eiga sér sín uppáhaldslið og uppáhaldsleikmenn.  Börnin fara ekki varhluta af þessu HM-æði frekar en aðrir og reyna að leika eftir kúnstir hinna bestu.  Krakkarnir herma eftir hinum ýmsu hlutum sem leikmennirnir á HM taka upp á.  Þau sjá hetjurnar sýna listir sínar og reyna að leika þær eftir.  Þetta á ekki bara við um leikstíl eða boltatækni einstakra leikmanna, heldur sjást  ýmsir taktar sem eru kannski ekki beint hluti af leiknum.  Heimamenn hafa t.d. stundað það að sýna samheldni með því að ganga alltaf til leiks með hönd á öxl næsta manns.

Á sumrin fara fram mörg svona stórmót í knattspyrnu hér á landi.  Þessi mót eru Heimsmeistarakeppnir í augum barnanna sem taka þátt.  Þau upplifa sig sem knattspyrnustjörnurnar sem þau líta svo mikið upp til.   Ábyrgð þessara fyrirmynda er mjög mikil, hvort sem um er að ræða leikmenn á HM eða í íslensku knattspyrnunni, og mikilvægt að leikmenn geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð. 

Börnin herma þó ekki einungis eftir listum knattspyrnumanna inni á vellinum, þau verða einnig fyrir áhrifum leikmanna, foreldra, forráðamanna og áhorfenda utan vallar og ekki síst þar er mikilvægt að þessir aðilar sýni ábyrgð gagnvart börnunum.  Fótbolti er og á að vera skemmtun.  Þar gegnum við fullorðna fólkið lykilhlutverki.  Við verðum að stíga fram og sýna gott fordæmi með okkar framkomu.  

Yngstu iðkendurnir, börnin, eru framtíð íþróttarinnar okkar.  Við verðum að sýna börnunum okkar að þau gildi sem við metum mikils í knattspyrnu – agi, virðing, samstaða, liðsheild og háttvísi eiga líka við í hinu daglega lífi í okkar samfélagi. 

KSÍ hefur, ásamt aðildarfélögum sínum og með stuðningi samstarfsaðila, gert sitt í að koma þessum skilaboðum á framfæri í gegnum tíðina og mun gera það áfram. 

Hjálpum börnunum að hafa gaman af fótbolta, því fótbolti er jú leikur, ansi skemmtilegur leikur.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ